Sjálfstæðisflokkurinn hvetur íslensk stjórnvöld til að stuðla að nánara samstarfi við önnur ríki, sér í lagi Norðurlönd, um áhrifaríkar aðgerðir til verndar umhverfi og lífríki lands og sjávar. Ísland verður einnig að bregðast við nýjum ógnum við öryggi fjarskipta og upplýsingakerfa. Taka verður mið af þjóðaröryggi við innleiðingu nýrrar fjarskiptatækni, fylgja fordæmi vinveittra grannríkja og leita eftir nauðsynlegu samstarfi við þau um netöryggi og varnir. Tryggja þarf afnotarétt af upplýsingatækni án þess að skerða friðhelgi einkalífs.
Ísland í Nató
Óvissa ríkir á alþjóðavettvangi um þessar mundir. Hún eykur nauðsyn þess að bandalagsþjóðir innan NATO standi vörð um sameiginleg gildi og Norðurlandaþjóðirnar leggi sitt af mörkum með fordæmi sínu; lýðræðislegum stjórnarháttum, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu.
Með stefnu sinni í öryggis- og varnarmálum verða Íslendingar að stuðla að stöðugleika á Norður- Atlantshafi og norðurslóðum. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja öryggi landsins.
Lífshagsmunir þjóðarinnar felast í því að hernaðarjafnvægi á norðurslóðum raskist ekki.
– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021
- Frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi
- Ísland standi utan ESB
- Tengsl við Bretland eftir Brexit tryggð
- Við viljum sem víðtækast frelsi í milliríkjaviðskiptum með afnámi viðskiptahindrana
- Utanríkisstefnan grundvölluð á EFTA-, EES- og NATO-samstarfi
Meginmarkmið Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum er:
- að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar,
- að efla stjórnmálalegt og efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga í samskiptum við útlönd,
- að stuðla að friðsamlegu samstarfi þjóða og ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda,
- að efla tengsl við þær þjóðir, sem deila með okkur hugsjónum um lýðræði og mannréttindi,
- að Ísland verði áfram fyrirmynd annarra þjóða í friðar-, jafnréttis- og umhverfismálum.
Fullveldi þjóðarinnar byggir á efnahagslegu sjálfstæði. Hagkerfi Íslendinga á mikið undir því að um heimsviðskipti gildi alþjóðlegar reglur, sem tryggi í senn viðskiptafrelsi, sjálfbærni, jafnrétti þjóða í millum, tillitssemi og ábyrgð í umhverfismálum.
Utanríkisverslun
Viðskiptafrelsi er einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja sem víðtækast frelsi í milliríkjaviðskiptum og afnám viðskiptahindrana.
Evrópa er mikilvægasta markaðs- og menningarsvæði Íslands. Mikilvægt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sjálfstæðisflokkurinn vill kappkosta að treysta tengslin við Bretland en úrsögn þess úr Evrópusambandinu felur í sér nýjar áskoranir og tækifæri fyrir Ísland.
Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES samningsins er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins.
Ísland á mikið undir því að rækta góð viðskiptasambönd við sem flest ríki heimsins. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að fríverslunarsamningum við ríki utan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) verði fjölgað, tvíhliða eða í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA. Landsfundur hvetur til þess að stjórnvöld beiti sér gegn því að innheimtir séu tollar af vörum frá ríkjum, sem Ísland á fríverslunarsamning við, þegar þeim er umskipað í höfnum Evrópusambandsins.
Alþjóðleg samvinna
Grundvöllur utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins er að standa vörð um hagsmuni Íslands með alþjóðlegu samstarfi og að rækta sérstaklega tengsl við þær þjóðir sem deila með okkur hugsjónum um frelsi, lýðræði og mannréttindi. Þá fagnar landsfundur því að endurskipulagning utanríkisþjónustunnar sé hafin undir forystu Sjálfstæðisflokksins og að á nýjan leik hafi verið tekin upp virk hagsmunagæsla í þágu íslenskra borgara og fyrirtækja með það að markmiði að auka skilvirkni, efla utanríkisviðskipti og sókn á nýja markaði.
Íslendingum ber að styðja af einurð málefni friðar og mannréttinda. Þar ber hæst barátta gegn hungri, sjúkdómum og fátækt og að tekið sé á vanda flóttafólks í heiminum með markvissum hætti. Þá er sérstakt fagnaðarefni að til standi að gera þróunarstarf Íslands árangursríkara og að íslenskt atvinnulíf komi meira að þróunarverkefnum.
Forsendur bættra kjara íbúa fátækustu ríkja heims eru aukin utanríkisviðskipti, virðing fyrir umhverfismálum, jafnrétti og mannréttindum. Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að reisa viðskiptamúra gegn fátækum ríkjum.
Ísland er fyrirmynd margra ríkja í jafnréttismálum og er mikilvægt að áhersla verði lögð á jafnréttismál í utanríkisstefnu landsins. Landsfundur hvetur jafnframt til þess að íslensk stjórnvöld stuðli að samstarfi við aðrar þjóðir í þeim tilgangi að setja umhverfismál og aðgerðir í þágu umhverfisins í árangursríkan farveg.
Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins. Mikilvægt er að tryggja að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Öryggis- og varnarmál
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna eru forsendur þess að öryggi landsins sé tryggt. Varnarsamstarf við Bandaríkin þarf ávallt að vera í samræmi við þarfir Íslands og að reglulegar æfingar tryggi að sveitum, sem ætlað er að koma landinu til varnar, þekki staðhætti vel.
Sjálfstæðisflokkurinn styður þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var af Alþingi 2016. Rétt er að kalla eftir sérstakri stefnumótun yfirvalda er varðar tölvu- og gagnaöryggi, efnahagsöryggi og aðra borgaralega þætti. Tryggja ber Íslendingum rétt til afnota af upplýsingatækni án þess að persónufrelsi þeirra sé raskað til dæmis með söfnun lýsigagna. Jafnframt þarf að huga að öryggisógnum sem breytingar í umhverfismálum geta valdið.
Í þágu öryggis, friðar og stöðugleika er mikilvægt að fækka gereyðingavopnum og er brýnt að staðið verði við samninginn um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna.
Mikilvægt er að haldnar verði fleiri björgunaræfingar hér á landi í samstarfi við vinaþjóðir. Þá er mikilvægt að tryggja innviði landsins með þeim hætti að Íslandi geti brugðist við mögulegum hættum, slysum og öðrum atburðum á hafsvæði umhverfis Ísland.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að varnarmál verði aðgreind frá annarri starfsemi Utanríkisráðuneytisins og jafnframt að alþjóðlegu björgunarsamstarfi Íslands hafi verið komið í formlegt horf.
Gera ber allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna gegn alþjóðlegum hættum. Náið samstarf skal hafa í þessum efnum við aðrar þjóðir með því að efla samvinnu á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, NATO og Evrópuráðsins. Brýnt er að brugðist sé við þeim ógnum sem Evrópa stendur frammi fyrir í varnarmálum. Áríðandi er að í öllum aðgerðum sé ávallt gætt meðalhófs og mannréttindi höfð í hávegum. Þörf er á að skoða árangur Schengen-samstarfsins vegna þróunar í Evrópu með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.
Mikilvægt er að dregið sé úr spennu vegna deilna í Úkraínu og að viðræður milli stríðandi fylkinga leiði til friðar á grundvelli alþjóðalaga.
Sjálfstæðisflokkurinn styður frjáls viðskipti og er almennt á móti viðskiptaþvingunum enda bitna þær verst á almenningi og eru ekki til þess fallnar að ná árangri.
Landsfundur áréttar að samstaða með vestrænum ríkjum og virðing fyrir alþjóðalögum eru hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu.
Hagsmunir á norðurslóðum
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að Ísland hafi nú aðkomu að ákvörðunum er varða brýna þjóðarhagsmuni á norðurslóðum. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021 felur í sér tækifæri til þess að hafa mikil áhrif á málefni norðurslóða. Leggja ber áherslu á verndun hafsins, sjálfbærni og öryggismál í formennskuáætlun Íslands.
Sjálfstæðisflokkurinn telur grundvallaratriði að skipting hafsvæða og nýting auðlinda á norðurskautssvæðinu verði í samræmi við hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og að Norðurskautsráðið verði áfram vettvangur samráðs aðildarríkjanna. Sporna þarf við hernaðarlegri uppbyggingu á svæðinu. Umhverfi norðurslóða er afar viðkvæmt og því verður nýting auðlinda og flutningur afurða ávallt að taka tillit til umhverfisins og lúta viðurkenndum kröfum um öryggi og sjálfbærni.
Byggt á ályktun utanríkisnefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018