Mennta- og menningarmál

Frjósamt umhverfi skapandi greina 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að umhverfi skapandi greina sé frjósamt og fjölbreytilegt. Lækkun á skattlagningu höfundaréttargreiðslna, sem ráðist var í að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, er liður í að hlúa að skapandi greinum. 

Hagstæðara skattaumhverfi, ekki ríkisstyrkir 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að rekstur sjálfstæðra fjölmiðla sé tryggður og leggst
gegn beinum ríkisstyrkjum til þeirra. Umfang RÚV á auglýsingamarkaði og samkeppni við stór erlend tæknifyrirtæki, sem búa við mun hagstæðara skattaumhverfi, hafa haft verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Takmarka á verulega umfang RÚV og bæta skattaumhverfi fjölmiðla.

– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

  • Auka þarf námsframboð og fjölga sjálfstætt starfandi skólum
  • Fjölbreyttara rekstrarform, nýsköpun og minni miðstýringu í skólastarfi
  • Athuga þarf sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu
  • Gera þarf sérstakt átak í málefnum barna af erlendum uppruna
  • Efla þarf tengsl og sveigjanleika á milli skólastiga
  • Bjóða skal uppá valfrelsi í skólakerfinu
  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla
  • Taka skal Lánasjóð íslenskra námsmanna og lánakerfið til endurskoðunar
  • Auka þarf samfellu í skóla og tómstundastarfi barna
  • Endurskoða þarf starfs- og heiðurslaunakerfi listamanna
  • Leggja ber niður mannanafnanefnd í núverandi mynd
  • RÚV á að fara af auglýsingamarkaði
  • Afnema ber virðisaukaskatt af fjölmiðlum
  • Styðja þarf við framleiðslu á vönduðu íslensku sjónvarpsefni á íslenskri tungu

Hagvöxtur, bætt lífskjör og samkeppnishæfni Íslands byggja á menntun og vísindastarfi. Góð menntun er grundvallarforsenda jafnra tækifæra og lykill að lífsgæðum einstaklinga, opnu samfélagi og er forsenda öflugs atvinnulífs og samkeppnishæfni. Auka þarf námsframboð og fjölga sjálfstætt starfandi skólum.  Miklar breytingar eru að verða á atvinnulífi og vinnumarkaði sem færa okkur í senn nýjar áskoranir og tækifæri, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þar má nefna öra þróun þekkingar og tækni með þeirri auknu sjálfvirknivæðingu sem 4. iðnbyltingin hefur í för með sér, bæði innanlands og á alþjóðamarkaði, stóraukinn fjölda innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Fjöldi núverandi starfa mun úreldast og ný verða til. Slíkt hefur jafnframt þá hættu í för með sér að þeir sem í dag sinna störfum sem munu hverfa, missi hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði. Því er fjölbreytilegt, skapandi og hagkvæmt menntakerfi lykillinn að kraftmiklu og arðskapandi atvinnulífi þar sem fólk mun þurfa að mennta sig alla ævina með sí- og endurmenntun.

Fjölbreytt rekstrarform, nýsköpun og minni miðstýring í skólastarfi er mikilvægur þáttur í að auka gæði menntakerfisins. Auka þarf gæðamat og gera samræmda mælikvarða til að meta árangur skóla og skólastiga.

Mælingar á gæðum í íslensku skólastarfi benda til þess að ýmsu sé ábótavant, einkum á grunnskólastigi. Má í því samhengi nefna niðurstöður PISA kannana og sérstaklega námsárangur ungra drengja. Leggja þarf aukna áherslu á lestur, stærðfræði og náttúruvísindi til að tryggja að íslenskir nemendur séu ekki eftirbátar í alþjóðlegu tilliti og til að bæta gæði skólastarfs.  Fjármálalæsi er einnig mikilvæg grundvallarfærni sem skilar sér í auknum skilningi, betri ákvarðanatöku og fjárhagslegri ábyrgð einstaklinga, sem stuðlar aftur að aukinni hagsæld.

Athuga þarf sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu, en þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og drengir eru einungis þriðjungur af nýnemum í háskólum. Skoða þarf þarfir þeirra og brotalamir skólakerfisins gagnvart þeim og líta þarf til lausna eins og aukinnar kennslu í gegnum verklegt nám og í leik. Einnig þarf að auka frelsi í námsvali og miðla þarf grunnfærni með því að virkja áhugasvið og draga úr áherslum við lærdóm eftir fastri forskrift. Skoða þarf hvatastrúktúr kennara til þess að stuðla að nýsköpun í skólakerfi.Þá þarf að fjölga karlmönnum í kennarastétt.

Huga þarf betur að uppbyggingu náms fyrir nemendur með íslensku sem annað mál því árangur þeirra og atvinnuþátttaka auk aðlögunar að íslensku samfélagi er mikilvæg. Innan þessa hóps er hlutfall þeirra sem ekki lesa sér til gagns mun hærra en gerist hjá nágrannaþjóðum og brotthvarf úr framhaldsskóla er einnig mjög hátt. Öll merki eru um að nemendum almennt, sem eru með íslensku sem annað mál, sé alls ekki sinnt með viðunandi hætti. Gera þarf sérstakt átak í málefnum barna af erlendum uppruna.

Skýr stefnumörkun sem lýtur að því að íslensk börn og ungmenni standi jafnfætis jafnöldrum sínum í alþjóðlegum samanburði er lykilþáttur í þróun menntakerfisins. Leggja ber áherslu á að vinna með nemendum, kennurum og öðrum hagsmunaaðilum að breytingum og umbótum á íslensku menntakerfi.

Bregðast þarf við fækkun nemenda í kennaranámi. Bæta þarf starfsumhverfi þeirra og breyta launakerfi stéttarinnar þannig að skólastjórnendur hafi meira svigrúm til að semja við starfsmenn á einstaklingsgrundvelli. Horfa þarf hér sérstaklega til nýrra áskorana og tækifæra í kennaramenntun á tímum mikilla tækniframfara.

Gera þarf úttekt á áhrifum lengingar kennaranáms og í kjölfarið endurmeta tilhögun þess með það að markmiði að auka gæði námsins og gera það eftirsóknarverðara. Eðlilegt er að tiltekin starfsréttindi kennara fáist eftir þriggja ára grunnnám á háskólastigi.  Tveggja ára meistaranám og vettvangsnám/starfsnám taki síðan við, þar sem lögð er áhersla á rannsóknir og sérhæfingu eins og gildir í flestum öðrum námsgreinum. Leggja ber meiri áherslu á stjórnunarhlutverk skólastjórnenda sem rekstraraðila, mannauðsstjóra og leiðtoga ásamt því að auka sjálfstæði skóla með minni miðstýringu.

Leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli

Efla þarf tengsl og sveigjanleika á milli skólastiga þannig að nemendur geti færst auðveldlega þar á milli í því augnamiði að nemendum á unglingastigi grunnskólanna  standi til boða val um námshraða. Enn fremur standi nemendum grunnskólanna til boða að stunda framhaldsskólaáfanga í fjarnámi samhliða grunnskólanáminu sér að kostnaðarlausu. Börnum sem ná ákveðnum árangri skal bjóðast að útskrifast ári fyrr. Styttingu náms á grunn- og framhaldsskólastigi og aukin skilvirkni í menntakerfinu fylgir mikill þjóðhagslegur ávinningur. Á sama tíma þarf að sporna gegn brotthvarfi með því að bæta gæði náms, auka tengsl atvinnulífs við skóla og tryggja fjölbreytni bæði í bók-, list- og iðnnámi svo að nemendur verði betur í stakk búnir að velja nám við hæfi er grunnskóla sleppir. Brotthvarf úr skólum á Íslandi er vandamál sem þarf að vinna á strax og grípa snemma á grunnskólastigi til aðgerða til aðstoðar nemendum. Að sama skapi þarf að efla náms- og starfsráðgjöf svo að nemendum sé betur ljóst hvaða fjölbreyttu valkostir eru á framhaldsskóla- og háskólastigi. Greiða þarf leið brotthvarfsnemenda aftur til náms m.a. með því að styðja við frumgreinadeildir háskólanna og þá nýsköpun í íslensku menntakerfi sem er að verða til með sjálfstæðum einkareknum lýðháskólum.  Samkvæmt hvítbók um umbætur í starfsmenntun var gerð áætlun um átak til eflingar starfsmenntunar á árunum 2015-2019. Lagt er til að þessu átaki verði fylgt eftir. Ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur ýtt úr vör verkefni til að skýra ábyrgð á stjórnsýslu starfsmenntunar, greina hlutverk ólíkra aðila og stuðla að meiri skilvirkni starfsmenntakerfisins. Markmiðið er endurskoðun á stjórnun og stjórnsýslu starfsmenntunar. Styðja ber við þessi áform ráðuneytisins.

Skólastarf þarf að þróast í takt við tækniframfarir á hverjum tíma. Það tengist bæði námsgagnagerð, miðlun upplýsinga og gagna og síðast en ekki síst breyttum kennsluháttum. Ný tækni getur umbylt ferlum í skólum og eflt fjarkennslu sem aftur getur lækkað kostnað og bætt gæði. Miðstýring má ekki koma í veg fyrir frumkvæði, nýsköpun og frelsi til að tileinka sér ný vinnubrögð. Framhaldsskólar megi bjóða upp á lengra nám en 3 ár með sérstökum samningum þar um.

Efla þarf námsgagnaútgáfu, auka rannsóknir á sviði kennslu og menntamála. Einnig þarf að efla þróunar- og endurmenntunarsjóði sem styðja við skólaþróun og sjálfstæði skóla ásamt því að stofna upplýsingatæknisjóð til að styðja við nýsköpun og menntatækni í skólum. Stórefla þarf námssjóð í þeim tilgangi að veita styrki til fyrirtækja vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar nemenda í iðnnámi. Ríkið ætti ekki að standa í útgáfu námsefnis heldur opna markaðinn fyrir allt námsefni skv. ákveðnum gæðakröfum og bjóða út gerð námsefnis þegar ríkið á hlut að máli.

Skóli án aðgreiningar er flókinn í framkvæmd og skapar mikið álag fyrir starfsfólk, nemendur og aðstandendur. Stefnan þarf að vera framkvæmanleg og því mikilvægt að meta faglega kosti og galla þessa fyrirkomulags, ekki síst fyrir nemandann sjálfan, ánægju hans og árangur. Styðja á við stoðþjónustu grunnskóla til þess að koma til móts við fjölbreytta nemendahópa með bættri þjónustu og auknu aðgengi að sérhæfðri aðstoð fyrir börn sem þurfa sérstök úrræði.

Bjóða skal uppá valfrelsi í skólakerfinu og að heimilt verði að reka skóla sem veita sérhæfða aðstoð og þjónustu svo sem fyrir bráðgerð börn eða þau sem þurfa sérstök úrræði og standa höllum fæti.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Tryggja  verður að hann geti staðið undir þeim faglegu kröfum sem gerðar eru til hans. Hlúa þarf vel að börnum og starfsmönnum, bæta starfsumhverfið og auka sveigjanleika í starfi og dvalartíma barna. Horft verður til meiri fjölbreytni í starfsemi leikskólanna til að mæta manneklu. Í því skyni mætti auka samstarf íþróttafélaga og þeirra aðila sem bjóða upp á tómstundastarf með námskeiðahaldi á leikskólanum. Þannig gæfist auk þess nemendum leikskólanna tækifæri á að kynnast fjölbreyttum tómstundum.  Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Sveitarfélög skulu gefa foreldrum kost á að fá umbun ef þeir nýta ekki þjónustu leikskóla svo þeir geti haft val um hver annast börn þeirra.

Háskólar, vísindi og nýsköpun

Menntun, vísindi og nýsköpun er aflvaki uppbyggingar og þróunar atvinnulífs. Starfsemi háskóla og rannsóknarstofnana gegnir lykilhlutverki við að tryggja bætt lífsgæði til frambúðar. Rannsóknir og nýsköpun er mikilvægt hlutverk háskóla og sérstaklega ber að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf og hvetja til sterkra tengsla við atvinnulífið. Ákveðnar atvinnugreinar hafa verið vanræktar hvað rannsóknarstarf varðar svo sem landbúnaður og ferðaþjónusta en aðrar greinar hafa verið til fyrirmyndar svo sem sjávarútvegur. Bæði háskólar og viðkomandi atvinnugreinar þurfa að huga betur að þessum þætti.

Fjárfesting í menntun er ein meginstoð verðmætasköpunar sérstaklega á tímum þegar umtalsverð breyting á sér stað í atvinnulífinu. Íslenskir háskólar þurfa aukið fjármagn á hvern nemanda til að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni. Veita þarf opinberum háskólum aukna heimild til innheimtu hóflegra skólagjalda og stýra betur fjölda nemenda í námi.

Auka þarf samvinnu og samhæfingu íslenskra háskóla- og rannsóknarstofnana. Endurskoða þarf hlutverk rannsóknarstofnana og meta hvort starfsemi þeirra sé í takt við nútímaþarfir háskóla og atvinnulífs. Skoða ber sameiningar háskóla og rannsóknarstofnanna í því ljósi, en sameiningar verða að skila faglegum ávinningi ekki síður en fjárhagslegum.

Sá rammi sem mótaður er um starfsemi háskóla má ekki draga úr frelsi þeirra til sjálfstæðrar starfsemi og stjórnunar. Samstarf og samkeppni þarf að haldast í hendur. Gott samstarf við erlenda háskóla mun laða að íslenska og erlenda námsmenn og kennara með það að markmiði að styrkja stöðu háskólastarfsemi á Íslandi.

Taka skal Lánasjóð íslenskra námsmanna og lánakerfið til endurskoðunar og halda áfram vinnu sem byggir á áður framkomnu frumvarpi. Það er að norrænni fyrirmynd sem jafnar stöðu nemenda, tekur mið af breyttum þörfum atvinnulífs og er árangurshvetjandi.

Íþróttastarf

Viðhalda þarf öflugu íþróttastarfi í landinu. Styðja þarf við íþróttir á öllum stigum og iðkendur þurfa hvatningu og stuðning til þátttöku enda hefur íþróttastarf mikið forvarnargildi. Halda þarf áfram áformum um byggingu nýs þjóðarleikvangs í Laugardalnum.

Auka þarf samfellu í skóla og tómstundastarfi barna. Hreyfing og tómstundastarf er forvörn og þarf að tengjast menntakerfinu almennt. Bæta þarf möguleika almennings til heilsuræktar. Áhersla verði á lýðheilsu með góðri aðstöðu fyrir almenningsíþróttir.

Menning

Tryggja þarf áframhaldandi grósku í íslensku menningarlífi um allt land sem hefur mikil hagræn áhrif og nýta tækifærin sem felast í menningar- og listalífi. Varðveita þarf sögu og menningararf og vernda íslenska tungu. Íslenska málsvæðið er lítið og stuðningur því nauðsynlegur. Verja þarf stöðu tungunnar í heimi upplýsingatækni og gervigreindar.

Leita þarf leiða til að skapa samkeppnishæft umhverfi löglegra efnisveitna þar sem reynslan sýnir að aðgengi að löglega fengnu afþreyingarefni dregur til muna úr ólöglegu niðurhali.

Endurskoða þarf starfs- og heiðurslaunakerfi listamanna þannig að það sé sanngjarnt, hvetjandi og skili þeim árangri sem til er ætlast.

Leggja ber niður mannanafnanefnd í núverandi mynd og endurskoða lög um mannanöfn til þess að gefa foreldrum meira frelsi til að gefa börnum sínum nafn en jafnframt standa vörð um íslenska mannanafnahefð.

Styðja þarf við öflugt lista- og menningarstarf og auka þátttöku allra aldurshópa í menningartengdri starfsemi.

Fjölmiðlar

Rekstur fjölmiðla og fjárhagslegur grundvöllur þeirra er mikilvægur lýðræði, gegnsæi og trúverðugleika í samfélaginu. Endurskoða þarf hlutverk ríkisútvarpsins með það að markmiði að þrengja verksvið þess í ljósi breytinga sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði. Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. RÚV á að fara af auglýsingamarkaði.

Horfa þarf m.a. til ýmissa tillagna sem koma fram í nýlegri fjölmiðlaskýrslu og hrinda þeim í framkvæmd. Afnema ber virðisaukaskatt af fjölmiðlum, bæði til að styrkja rekstur þeirra og samræma skattaumhverfi. Auka þarf almennt gegnsæi í eignarhaldi fjölmiðla og tryggja áreiðanleika skráningar.

RÚV þarf að leggja aukna áherslu á sérstöðu sína, m.a. gagnvart öðrum miðlum. Það endurspeglast m.a. í því að leggja aukna áherslu á innlent efni á kostnað erlends afþreyingarefnis.

Styðja þarf við framleiðslu á vönduðu íslensku sjónvarpsefni á íslenskri tungu, sérstaklega því sem er miðað að börnum og ungmennum.

Byggir á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018