Styrking lögreglunnar
Eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins er að tryggja öryggi borgaranna, vernda réttindi þeirra og friðhelgi einkalífs. Lögreglan skal halda uppi öflugri löggæslu með það að markmiði. Fjölga þarf lögreglumönnum í landinu og þekking, þjálfun, starfsumhverfi og búnaður þarf að vera í takt við nútíma kröfur.
Áfram þarf að taka á kynbundnu ofbeldi og leggja áherslu á að stytta ferli réttarvörslukerfisins og auka traust til þess.
– Úr stjórnmálaályktun frá Flokksráðsfundi 2021
- Styrkja þarf varnir Íslands þegar kemur að netöryggi
- Fjölga þarf lögreglumönnum í landinu
- Leggja skal áherslu á réttindi, menntun og annan stuðning við fanga
- Stytta þarf verulega biðtíma dæmdra einstaklinga eftir að geta hafið afplánun
- Fjölga þarf og auka möguleika á fullnustu refsinga utan fangelsa
- Endurnýja þarf þyrlur Landhelgisgæslunnar eins fljótt og unnt er
- Tryggja þarf björgunarsveitum beina hlutdeild í tekjum af erlendum ferðamönnum
Eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins er að tryggja öryggi borgaranna, vernda réttindi þeirra og friðhelgi einkalífs. Lögreglan skal halda uppi öflugri löggæslu með það að markmiði. Þátttaka lögreglunnar í alþjóðlegu samstarfi er sífellt mikilvægari. Nýta ber öfluga landamæravörslu og greiningarstarf vegna hennar í meira mæli til að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi. Almennt verður að telja að Schengen samstarfið hafi skipt Íslendinga miklu máli en þörf er á að skoða árangur samstarfsins vegna þróunar í Evrópu með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Styrkja þarf varnir Íslands þegar kemur að netöryggi en tryggja ber frjáls og opin netsamskipti. Sífellt á að vera í endurskoðun m.a. vegna persónuverndarsjónarmiða hvaða upplýsingar stjórnvöld og stofnanir eins og Þjóðskrá eru með um einstaklinga. Mikilvægt er að reglur á hverjum tíma séu skýrar.
Fjölga þarf lögreglumönnum í landinu og þekking, þjálfun, starfsumhverfi og búnaður þarf að vera í takt við nútíma kröfur. Auknar og meiri kröfur eru nú gerðar vegna fjölgunar ferðamanna og til að tryggja öryggi ferðamanna og landsmanna svo og viðkvæmrar náttúru Íslands.
Leggja skal áherslu á réttindi, menntun og annan stuðning við fanga meðan á fangelsisvist stendur og við þá sem nýlega hafa lokið afplánun.
Fangelsisstofnanir verða að vera í stakk búnar til að sinna hlutverki sínu þannig að föngum sé veittur stuðningur til sjálfseflingar og betrunar. Stytta þarf verulega biðtíma dæmdra einstaklinga eftir að geta hafið afplánun.
Fjölga þarf og auka möguleika á fullnustu refsinga utan fangelsa, t.d. með samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti. Almennt þarf fælingamáttur gegn brotum að vera meiri, – ekki síst vegna kynferðisglæpa, alvarlegra ofbeldismála og fjársvikamála.
Leggja skal áherslu á fræðslu og forvarnir og aðstoð við þá sem hafa ánetjast áfengi eða fíkniefnum m.a. með auknu samstarfi lögreglu og heilbrigðisyfirvalda.
Almannavarnir og björgunarstarf
Landhelgisgæsla Íslands gegnir lykilhlutverki í aðgerðum í þágu almannavarna og björgunarstarfa. Tryggja verður öruggan starfsgrundvöll hennar og gera henni kleift að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni meðal annars með endurnýjun á þyrlum eins fljótt og unnt er.
Áfram skal unnið að markvissu og samhæfðu starfi ólíkra viðbragðsaðila almannavarna og björgunarstarfs. Mikilvægt er að tryggja réttaröryggi og réttindi sjálfboðaliða í hjálparstarfi og koma menntun á þessu sviði inn í skólakerfið. Nýjar áskoranir fylgja miklum fjölda ferðamanna með auknu álagi og koma þarf til móts við það. Þá þarf einnig að tryggja björgunarsveitum nýja tekjuliði með beinni hlutdeild í tekjum af erlendum ferðamönnum. Framlag sjálfboðaliða og félagssamtaka þeirra er ómetanlegt og mikilvægt að þeir fái stuðning svo ríkið þurfi ekki að taka yfir alla starfsemi á þessu sviði.
Byggir á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018