Húsnæðismál

Húsnæðismál 

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði, hvort sem er til eignar eða leigu. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði. Sjálfstæðisflokkurinn mun fjarlægja hindranir og auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði, en einnig stuðla að virkum leigumarkaður eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndunum. 

Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins var lögfest til frambúðar 10 ára skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar vegna fyrstu íbúðakaupa. Sjálfstæðisflokkurinn vill að tímabundin heimild annarra til að ráðstafa séreignasparnaði inn á íbúðalán verði til frambúðar, samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrstu kaup.

– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

  • Allir eiga að geta eignast eigið húsnæði
  • Tryggja þarf fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði fyrir alla
  • Aðgerðir hins opinbera á sviði húsnæðismála stuðli að auknu framboði húsnæðis
  • Lækka þarf byggingarkostnað og einfalda regluverk til að auðvelda m.a. ungu fólki kaup á fyrstu íbúð
  • Auka þarf framboð lóða og lækka gjöld á nýbyggingar
  • Skapa þarf skilyrði fyrir heilbrigðan leigumarkað

Sjálfstæðisflokkurinn vill að allir geti eignast sitt eigið húsnæði. Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði fyrir alla.

Miklu máli skiptir að aðgerðir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála, stuðli að auknu framboði húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar þannig að stöðugleiki og eðlilegt jafnvægi náist á sem skemmstum tíma á fasteignamarkaði. Spornað sé gegn því að sértækar aðgerðir hins opinbera ýti undir eftirspurn og þar með hærri húsnæðiskostnað.

Til að auðvelda ungu fólki kaup á sínu fyrsta íbúðarhúsnæði þarf að leita leiða til að lækka byggingarkostnað og auka framboð á íbúðum sem henta við upphaf búskapar.

Það er sérstakt markmið að auðvelda ungu fólki sín fyrstu kaup með skattalegum og vaxtalegum hvötum til sparnaðar til að standa undir útborgun við fyrstu kaup. Þessi úrræði skal festa varanlega í sessi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir að fjarlægja þær mörgu hindranir sem eru á vegi ungs fólks sem eignast vill íbúðarhúsnæði. Hvetja skal sveitarstjórnir til að auka framboð lóða og lækka gjaldtöku á nýbyggingar og afnema skal afskipti hins opinbera af greiðslumati og ábyrgðum á lánum vegna húsnæðiskaupa. Fella ber niður stimpilgjöld.

Skapa þarf skilyrði fyrir heilbrigðan leigumarkað þar sem langtímahugsun er höfð að leiðarljósi. Það skapar heilbrigt leiguumhverfi og lágt leiguverð.

Byggir á ályktun velferðarnefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018