Heilbrigðismál

  • Tryggja þarf sjúklingum þjónustu innanlands m.a. með því að semja við sjúkrastofnanir um augnaðgerðir, liðskipti og aðrar aðgerðir
  • Bæta þarf tengingu og samstarf milli Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana
  • Auka þarf og einfalda fjarheilbrigðisþjónustu
  • Styðja þarf við þá sjúklinga, sem ekki geta fengið þjónustu í heimabyggð
  • Horfa þarf til fjölbreyttari rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu og stuðla að nýsköpun
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill móta heilbrigðisstefnu á breiðum grunni með skýra framtíðarsýn
  • Menntun heilbrigðisstarfsfólks verði í takt við þarfir samfélagsins
  • Tryggja þarf valfrelsi, bæta aðgengi að þjónustu og stytta biðlista
  • Gera þarf öllum heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka lyfja- og sjúkrakostnað einstaklinga
  • Verslun á lausasölulyfjum verði gerð frjáls
  • Tryggja þarf þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar til að bæta þjónustu í nærumhverfi
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja forræði allra yfir eigin líkama
  • Gera þarf stórátak í geðheilbrigðismálum með áherslu m.a. á forvarnir

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja öllum landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á.

Markmið núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Sjálfstæðisflokkurinn vill að þetta markmið verði ávallt haft að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku varðandi heilbrigðiskerfið; bæði vegna einstaklinga sem og veitenda þjónustunnar. Áherslu ber að leggja á rekstur heilbrigðisstofnana um land allt þannig að hægt sé að veita sem flestum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar með talið fæðingarþjónustu í heimabyggð. Þegar slíku verður ekki við komið vegna smæðar samfélaga er brýnt að aukakostnaður vegna slíks verði ekki lagður á fæðandi konur og fjölskyldur þeirra. Bæta þarf tengingu og samstarf milli Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana um land allt.

Mikilvægt er að auka og einfalda fjarheilbrigðisþjónustu svo allir geti nýtt sér hana, sem og bráðaþjónustu utan spítala. Styðja þarf við þá sjúklinga, sem ekki geta fengið þjónustu í heimabyggð m.a. með sjúkrahóteli, heimahjúkrun eða heimaþjónustu. Afar brýnt er að stórefla sjúkraflug og tryggja að slík þjónusta sé ætíð til taks í hinum dreifðu byggðum, m.a með rekstri sjúkraþyrlna og tryggja að viðbragðstími sé ásættanlegur.

Mikilvægt er að ríkið tryggi rekstrargrundvöll  heilbrigðisstofnana á sama tíma og gætt er að hagræðingu. Horft verði til fjölbreyttari rekstrarforma og stuðlað að nýsköpun.

Heilbrigðisstefna

Sjálfstæðisflokkurinn vill móta heilbrigðisstefnu á breiðum grunni með skýra framtíðarsýn og huga að menntun heilbrigðisstarfsfólks með tilliti til þarfa samfélagsins.

Leggja þarf fram ítarlega heilbrigðisáætlun sem tekur til skipulags þjónustunnar til að tryggja valfrelsi, bæta aðgengi og stytta biðlista. Áætlunin þarf að taka til fjárfestinga í innviðum og mannauði, fjármögnunar þjónustunnar, greiðsluþátttöku almennings, menntunar heilbrigðisstarfsfólks, starfsmannastefnu og vísindarannsókna auk annarra þátta í samræmi við ályktun Alþingis frá 31. maí 2017. Tryggja þarf sjúklingum og aðstandendum þjónustu innanlands meðal annars með því að semja við sjúkrastofnanir um augnaðgerðir, liðskipti og aðrar aðgerðir. Tryggt verði að ábyrgð á aðgerðum framkvæmdum af einkaaðilum eða sjálfstæðum sjúkrastofnunum verði ekki velt yfir á almenna heilbrigðiskerfið.

Við mótun áætlunarinnar skal hafa einstaklingsmiðaða þjónustu að leiðarljósi. Mikilvægt er að mæta skjólstæðingum á fyrsta þjónustustigi. Bregðast þarf við vaxandi þörf fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Mikilvægt er að auka aðsókn ungs fólks í greinar innan þess og að koma í veg fyrir skort vegna útstreymis mannauðs frá landinu og í aðrar ótengdar starfsgreinar.

Gera þarf öllum heilbrigðisstéttum kleift að stunda sjálfstæðan rekstur.

Lyfja og sjúkrakostnaður

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka lyfja- og sjúkrakostnað einstaklinga en tryggja jafnframt kaup á nýjum og þróuðum lyfjum. Verslun á lausasölulyfjum verði gerð frjáls.

Lækka þarf enn frekar þakið á kostnaði þeirra sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda með því að koma á einu samræmdu greiðsluþátttökukerfi. Tryggja þarf jafnræði í almenna sjúkratryggingakerfinu þar sem tekið er mið af þörfum landsbyggðarinnar.

Nýr Landsspítali

Sjálfstæðisflokkurinn vill áframhaldandi uppbyggingu Landspítala (LSH). Lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu með öryggi og sterkari samgönguleiðum að leiðarljósi. Þannig verði horft til nýrra og breyttra þarfa, fleiri valkosta fyrir starfsmenn og sjúklinga og hugsanlega annars konar sérhæfingu á næstu áratugum.

Skipa þarf sérstaka stjórn yfir LSH til stuðnings við stjórnendur og eftirfylgni með eigendastefnu spítalans. Samhliða uppbyggingu Landspítala verði aðferðir við fjármögnun og rekstur sjúkrahúsa endurskoðaðar.

Heilsugæslan

Sjálfstæðisflokkurinn vill efla heilsugæsluna.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að nýta betur möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum innan heilbrigðisþjónustunnar með áherslu á skýrar gæðakröfur samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Einkareknar heilsugæslustöðvar hafa þegar sannað ágæti sitt á síðustu misserum. Halda skal áfram að bjóða út starfsemi heilsugæslunnar til að auka aðgengi, hagkvæmni og skilvirkni. Veitendum heilbrigðisþjónustu verði í auknum mæli gert kleift að starfa sjálfstætt. Tryggja þarf þverfaglega þjónustu innan heilsugæslunnar til að bæta þjónustu í nærumhverfi.

Heilbrigði allra

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja forræði allra yfir eigin líkama.

Það er sjálfsagt frelsismál að konur hafi fullt forræði yfir eigin líkama. Því ætti staðgöngumæðrun að vera leyfð. Löggjöf um þungunarrof er íþyngjandi fyrir konur. Konur ættu ekki að þurfa rökstudda greinargerð tveggja sérfræðinga þegar ein dugar til þess að þungunarrof á félagslegum forsendum megi fara fram. Sjálfstæðisflokkurinn vill að blóðgjafar séu metnir á grundvelli heilsufars óháð kynhneigð.

Byrlun nauðgunarlyfja (svefn og/eða svæfingarlyfja) er tilraun til nauðgunar, líkamsmeiðinga og/eða eitrunar. Heilbrigðiskerfið og löggæsla þurfa að taka fastar á þessum málaflokki með að framfylgja rétti fórnarlamba.

Forvarnir og heilsuefling

Leggja  ber áherslu á forvarnir og heilsueflingu á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum.

Mótuð verði stefna í baráttunni við lífsstílstengda sjúkdóma og þar sett fram ákveðin mælanleg markmið fyrir næstu 5 og 10 ár. Leggja ber áherslu á fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta allra landsmanna. Ákveðnir sjúkdómar verði settir í forgang.

Veita þarf verðandi foreldrum heildstæða þjónustu, fræðslu og stuðning í gegnum barneignarferlið í þeim tilgangi að bæta öryggi og líðan þeirra og styðja við þau í foreldrahlutverkinu með aukinni foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Góð tengslamyndun barns við báða foreldra sína hefur jákvæð áhrif á þroska og líðan þeirra frá upphafi og dregur úr líkum á hegðunar- og tilfinningalegum vandamálum hjá þeim síðar á ævinni. Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja áherslu á að fjölga úrræðum fyrir ungt fólk í vanda. Setja þarf á laggirnar úrræði sem koma í veg fyrir að börn og ungmenni endurtaki afbrot. Vinna þarf áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi. Styrkja þarf samvinnu almennings, frjálsra félagasamtaka og heilbrigðiskerfis og tryggja aðgengi að stuðningsúrræðum.

Bætt geðheilbrigði

Leggja ber áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum með stórauknu átaki. Halda þarf áfram að auka þjónustu heilsugæslunnar til að sinna fyrsta stigs þjónustu við einstaklinga með geðræn vandamál. Fella þarf þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga undir í sjúkratryggingar.

Standa þarf vörð um geðheilbrigði aldraðra og annarra hópa sem hættir við að  einangrast félagslega og það starf sem félagasamtök hafa unnið með góðum árangri til margra ára.

Helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru í þeirra stöðu vegna geðrænna erfiðleika. Geðheilbrigðiskerfið þarf að grípa viðkomandi einstaklinga fyrr og koma þeim til aðstoðar með gagnreyndum aðferðum.

Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda. Tryggja þarf endurhæfingu fíknisjúklinga og auðvelda þeim endurkomu í samfélagið. Skapa þarf úrræði fyrir fíkla með skaðaminnkun að leiðarljósi svo sem með eflingu nálaskiptaverkefna og uppbyggingu verndaðra neyslurýma að fyrirmynd Svisslendinga.

Rafrettur

Mikilvægt er að setja sérlög fyrir rafrettur að evrópskri fyrirmynd.

Meðferðarúrræði

Þörf er á endurskoðun á meðferðarúrræðum hérlendis. Ríkisstyrkt meðferðarúrræði þurfa að tryggja að boðið sé upp á bæði kynjaskiptar og aldursskiptar meðferðir, til að sporna við kynferðislegu áreiti í meðferð.

Byggir á ályktun velferðarnefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018