Ferðamál

  • Frekari vöxtur ferðaþjónustu þarf að vera í sátt við íbúa og náttúru
  • Huga þarf að umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þolmörkum
  • Tryggja þarf öryggi ferðamanna og bæta upplýsingagjöf
  • Ríkið ætti að bjóða út  þjónustu á ferðamannastöðum í eigu þess
  • Regluverk skal vera sem einfaldast
  • Ekki á að takmarka nýtingarrétt einstaklinga á eignum sínum
  • Þeir sem heimsæki ferðamannastaði greiði fyrir uppbyggingu þeirra

Ferðaþjónustan er einn af máttarstólpum íslenskrar atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Í uppbyggingu ferðaþjónustu felast mikil sóknarfæri samfélagsins til aukinnar hagsældar og jákvæðrar byggðaþróunar.

Langtímastefnumótun í ferðaþjónustu er fagnað sem og samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar um að efla ferðaþjónustu. Frekari vöxtur ferðaþjónustu þarf að vera í sátt við íbúa og náttúru. Huga þarf að umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þolmörkum. Tryggja þarf öryggi ferðamanna og bæta upplýsingagjöf. Nauðsynlegt er að uppbygging innviða sé í takt við vöxt greinarinnar. Ríkið ætti að bjóða út starfsemi nauðsynlegrar þjónustu á þeim ferðamannastöðum sem eru í eigu þess.

Mikilvægt er að hið opinbera leggi ekki stein í götu ferðaþjónustunnar með aukinni skattlagningu, þar með talið hækkun virðisaukaskatts, regluvæðingu eða nýjum ríkisstofnunum. Þeir sem heimsæki ferðamannastaði greiði fyrir uppbyggingu þeirra. Ekki er sanngjarnt að uppbygging ferðamannastaða sé fjármögnuð með skattlagningu á þá sem ekki sækja ferðamannastaði.

Regluverk skal vera sem einfaldast og ekki takmarka nýtingarrétt einstaklinga á eignum sínum.

Byggir á ályktun atvinnuveganefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018