Félags- og tryggingamál

  • Auka þarf aðstoð við aldraða og auka heimaþjónustu
  • Fjölga þarf hjúkrunarheimilum um allt land í samræmi við þarfir á hverjum stað
  • Vasapeningakerfi til eldri borgara verði lagt af á dvalarheimilum
  • Bæta þarf tannheilsumál eldri borgara með aukinni þátttöku Sjúkratrygginga Íslands
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða bætur almannatrygginga í heild
  • Hækka þarf frítekjumörk vegna atvinnutekna, fjármagnstekna og greiðslna úr lífeyrissjóðum
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill auka sjálfstæði fatlaðra einstaklinga

Málefni eldri borgara

Sjálfstæðisflokkurinn vill auka aðstoð við aldraða, auka heimaþjónustu og fjölga hjúkrunarheimilum um allt land.

Landsfundur telur nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi dvalar- og hjúkrunarheimila þannig að heimilismenn greiði milliliðalaust fyrir þá þjónustu sem þeir fá að undanskilinni heilbrigðisþjónustu og umönnun, sem þá er greidd af ríkinu með daggjöldum til heimilanna. Af þessu leiðir að vasapeningakerfi til eldri borgara verði lagt af. Mikilvægt er að fjölga hjúkrunarrýmum, þar sem þörfin er brýnust. Einnig er mikilvægt að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara. Heimaþjónusta taki mið af aldri og þörf og verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati. Áhersla verði lögð á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst. Sveitarfélög þurfa að vera undirbúin fyrir fjölgun eldri borgara og mæta búsetuþörf þeirra.

Brýnt er að bæta tannheilsumál eldri borgara með aukinni þátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Brýnt er að hrinda eftirfarandi í framkvæmd:

  • að aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu og þjónustusamningur milli aðila verði gerður
  • að tekjur og lífeyrisgreiðslur undir viðmiðunarmörkum skerði ekki greiðslur TR til 67 ára eldri
  • að Sjúkratryggingar Íslands taki meiri þátt í kostnaði vegna kaupa heyrnartækja aldraðra
  • að 45% skerðingarprósenta almannatrygginga verði lækkuð í áföngum og færð niður í 40% á þessu ári
  • að hið almenna frítekjumark verði hækkað úr 25 þús. kr. upp í 50 þús kr. á mánuði
  • að aldraðir geti selt eða leigt húsnæði sitt án þess að andvirðið skerði greiðslur frá TR. Það felur í sér að þeir greiða skatta og skyldur af eignasölunni en verður ekki íþyngt umfram aðra þegna þjóðfélagsins.

Sjálfstæðisflokkurinn vill sveigjanleg starfslok

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á aukna virkni aldraðra og að styðja þá til þátttöku í samfélaginu. Eldri borgarar geti tekið þátt í störfum eftir getu og vilja. Mikilvægt er að einstaklingum gefist tækifæri til sveigjanlegra starfsloka án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi þeirra. Heimilt verði að fresta töku lífeyris umfram lögbundinn lífeyrisaldur gegn hækkun lífeyris og að sama skapi verði heimilt að flýta töku lífeyris gegn lækkun lífeyris. Vegna bættrar heilsu og langlífis verður nauðsynlegt að hækka lífeyrisaldur í fyrsta áfanga úr 67 árum í 70 ár.

Málefni fólks með skerta starfsorku

Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða bætur almannatrygginga í heild.

Nauðsynlegt er að endurskoða bætur almannatrygginga í heild sinni út frá þeirri grunnforsendu að öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis án þess að dregið sé úr hvatanum til sjálfsbjargar.

Auk þess skal styrkja einstaklinginn til sjálfsbjargar og fjölga möguleikum hans til þess að bæta kjör sı́n. Auk þess þarf að fjölga endurhæfingarúrræðum og tryggja að þeir sem ekki fá endurhæfingu á ríkisstofnun geti sótt þá þjónustu á almennum markaði með niðurgreiðslu úr ríkissjóði.

Frítekjumörk vegna atvinnutekna, fjármagnstekna og greiðslna úr lífeyrissjóðum þurfa að hækka, sérstaklega hjá fólki sem er á endurhæfingar- eða örorkulífeyri og auðvelda komu þess aftur út á vinnumarkaðinn að endurhæfingu lokinni. Króna á móti krónu skerðing viðgengs enn þá hjá þeim sem eru á örorkulífeyri. Þá skerðingu ber að afnema nú þegar. Afnema skal tekjutengingu örorkulífeyris við maka vegna heimilisuppbóta.

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja öllum tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði þrátt fyrir sjúkdóma/fötlun.

Tryggja þarf að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma og/eða slysa, fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Skapa þarf ný atvinnutækifæri, t.d. með hlutastörfum við hæfi samkvæmt réttlátu mati á starfsgetu fyrir viðkomandi einstaklinga, og auðvelda atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði. Þannig er öllum óháð stöðu, tryggð viðeigandi aðlögun. Hið opinbera þarf að leiða þessa vinnu ásamt hinum almenna vinnumarkaði.

Sjálfstæðisflokkurinn vill auka sjálfstæði fatlaðra einstaklinga.

Allir fatlaðir einstaklingar hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálfir, t.d með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).

Jöfn tækifæri allra

Sjálfstæðisflokkurinn vill jöfn tækifæri.

Það er markmið Sjálfstæðisflokksins að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum einstaklinga óháð uppruna, þjóðerni, stétt, tungumáli, litarhætti, trúarbrögðum, lífs- eða stjórnmálaskoðun, kyni, kynhneigð, kyngervi, aldri, fötlun, holdafari, líkamsgerð, heilsufari, atgervi eða annarri stöðu. Með því að stuðla að jöfnum tækifærum er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélags. Enn fremur þarf að stórauka fræðslu og vitundavakningu innan heilbrigðiskerfisins um málefni og þarfir hinseginfólks. Mikilvægt er að hvetja báða foreldra til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs með því m.a. að hækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Taka þarf til endurskoðunar vinnubrögð og verkferla í málefnum trans- og intersex fólks í heilbrigðiskerfinu.

Sérstaklega þarf að gera nauðsynlegar lagabreytingar sem endurspegla mannréttindi þessara hópa.

Byggir á ályktun velferðarnefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018