- Bæta skal samkeppnisumhverfi fyrirtækja með hagsmuni almennings að leiðarljósi
- Tryggja þarf dreift eignarhald á stórum bönkum og að bankar starfi á eigin ábyrgð
- Auka þarf frelsi í lífeyriskerfinu og að dregið verði úr tekjutengingum
- Samspil kjarasamninga, ríkisfjármála og peningastefnu tryggi stöðugleika
- Draga þarf úr vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda
- Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar verði til frambúðar
- Virða skal félagafrelsi á vinnumarkaði
- Lækka skal skatta og einfalda skattkerfið til að draga úr neikvæðum áhrifum og hvötum
- Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs
- Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið
- Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun
- Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun
Hagkvæmt og skilvirkt viðskiptaumhverfi er mikilvæg forsenda efnahagslegrar velferðar og gerir Ísland aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki. Regluverk verður að vera einfalt og skilvirkt. Viðskiptafrelsi þarf að ríkja á sem flestum sviðum. Landsfundur fagnar skrefum sem tekin hafa verið í afnámi fjármagnshafta. Mikilvægt er að öll höft á flæði fjármagns verði afnumin hið snarasta.
Frjáls samkeppni er einn af hornsteinunum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Tryggja þarf að samkeppnissjónarmið eigi ríkan sess í lagasetningu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öfluga og sanngjarna samkeppni á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, þar með talið í fjármála-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Virk samkeppni og skilvirk neytendavernd er almenningi til hagsbóta. Brýnt er að regluverk atvinnulífsins verði endurskoðað með einföldun, hagræðingu og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Landsfundur fagnar niðurfellingu almennra vörugjalda og tolla, sem hefur stuðlað að aukinni samkeppni á neytendamarkaði. Mikilvægt er að draga enn frekar úr aðgangshindrunum á íslenskum mörkuðum.
Landsfundur ályktar að endurskoða beri búvörulögin frá grunni til að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að samkeppnislög gildi um landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar. Leggja skal áherslu á að Ísland geri fríverslunarsamninga við önnur ríki. Þannig er lagður grunnur að frekari markaðssókn íslenskra útflutningsgreina. Skattaumhverfi fyrirtækja á að vera með þeim hætti að ekki þurfi ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni.
Koma þarf í veg fyrir kennitöluflakk án þess að gera stofnun fyrirtækja erfiðari eða dýrari.
Fjármálakerfið
Fjármálakerfið á Íslandi er stórt í hlutfalli við landsframleiðslu og óhagkvæmt metið út frá vaxtamun og kostnaðarhlutfalli. Draga þarf úr kostnaði bankakerfisins með því að afnema hamlandi regluverk og sérstaka skattlagningu, eins og bankaskatt. Slíkar aðgerðir stuðla að lægri vöxtum og aukinni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Gæta þarf að því að skattlagning fjármálafyrirtækja bitni ekki á viðskiptavinum bankanna eða á alþjóðlegri samkeppnishæfni bankakerfisins. Til að koma í veg fyrir fákeppni þurfa stjórnvöld að gæta að því að lágmarka aðgangshindranir.
Stjórnvöld eiga að lýsa því yfir að bankar starfi á eigin ábyrgð, en ekki skattgreiðenda.
Eignarhald á bönkum þarf að breytast. Landsfundur áréttar að engin þörf er á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. Ríkið selji eignarhlut sinn í bönkunum. Tryggja þarf dreift eignarhald og opið og gagnsætt söluferli. Grunnforsenda verðstöðugleika er stöðugleiki í fjármálakerfinu. Skoða skal vandlega kosti og galla þess að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands.
Skoðaðir verði kostir og gallar við starfsramma og eignarhald Reiknistofu bankanna með það að leiðarljósi að tryggja eðlilega samkeppni.
Í kjölfar afnáms allra fjármagnshafta skal Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans lagt niður.
Endurskoða skal opinbert stuðningskerfi í húsnæðismálum. Eitt af meginverkefnum stjórnvalda á hverjum tíma er að skapa umhverfi þar sem flestum gefst raunhæfur kostur á að eignast eigið húsnæði og þar sem að virkur leigumarkaður fyrir íbúðir getur þrifist.
Við endurskoðun lagaumhverfis fjármálafyrirtækja skal tryggja réttarstöðu neytenda og fella þarf starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja undir nauðsynlegt laga- og regluverk.
Lífeyriskerfið
Tekjutengingar almannatrygginga gera það að verkum að ábati af lífeyrissparnaði er oft lítill, sérstaklega hjá tekjulágum einstaklingum. Sjálfstæðisflokkurinn tryggði eldri borgurum mestu kjarabætur í áratugi með gagngerum kerfisbreytingum á almannatryggingakerfinu. Landsfundur undirstrikar nauðsyn þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara og að nauðsynlegt sé að hrinda í framkvæmd kerfisbreytingum í tryggingakerfi öryrkja þ.e. afnema krónu-á-móti-krónu skerðingu og stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og félagsvirkni öryrkja.
Á síðustu árum hefur lífeyrissjóðum fækkað. Stærri og öflugri lífeyrissjóðir með hagkvæmum rekstri og betri áhættudreifingu eru almenningi til hagsbóta. Erlend fjárfesting lífeyrissjóða er mikilvægur hluti af áhættudreifingu þeirra og nauðsynlegt er að heimildir til erlendrar fjárfestingar séu frjálsar. Auka skal áhrif sjóðfélaga á stjórnir lífeyrissjóða og ábyrgð gagnvart eign sinni og gefa þeim aukið frelsi til að velja um lífeyrissjóð.
Landsfundur leggur til að skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðarlán verði til frambúðar.
Peningastefnan
Peningastefnu landsins þarf að taka til endurskoðunar með langtíma efnahagslegan stöðugleika sem meginmarkmið. Mikilvægt er að ríkisfjármál, peningastefna og kjarasamningar spili saman til að hægt sé að draga úr vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Mestu skiptir að halda stöðugu verðlagi og lágmarka vaxtakostnað heimila og fyrirtækja. Til framtíðar þurfa lánakjör heimila og fyrirtækja hér á landi að vera í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.
Vinnumarkaðurinn
Félagafrelsi á að virða. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að launagreiðendur og stéttarfélög tryggi raunverulegt félagafrelsi á vinnumarkaði.
Sjálfstæðisflokkurinn styður að tekið verði upp vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd og mikilvægt er að lagaumhverfi styðji við það. Miða skal við að launahækkanir fylgi framleiðni og að útflutningsgreinar setji viðmið fyrir launahækkanir.
Skattamál
Samkeppnishæf starfsskilyrði og hagstætt fyrirtækjaumhverfi eru lykilatriði góðra lífskjara. Einfalda þarf skattkerfið og lækka tekjuskatt á einstaklinga. Stefna ber að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki í áföngum í samtals 25% á næstu árum og að þessu markmiði verði náð árið 2025. Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs, dregur úr freistni til undanskota og eykur vilja til atvinnuþátttöku.
Mikilvægt er að líta til heildaráhrifa skattkerfisins og á samspil þess og almannatrygginga. Skattstofnar eiga að vera breiðir og gæta þarf að því að jaðarskattar hafi sem minnst áhrif á ákvarðanatöku og velferð almennings. Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið. Nauðsynlegt er að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af verkaskiptingu, án þess að auka skattheimtu. Landsfundur leggst gegn hvers kyns aukinni og óhóflegri skatt- og gjaldheimtu á nýbyggingar.
Landsfundur fagnar afnámi stimpilgjalds af lánaskjölum en áréttar að stefnt skuli að afnámi allra stimpilgjalda. Innheimta þjónustugjalda skal endurspegla raunkostnað við viðkomandi þjónustu. Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun. Ennfremur skal endurskoða skattlagningu leigutekna en sú skattlagning leiðir, fyrst og fremst til hærra leiguverðs og meiri skattaundanskota.
Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun.
Byggir á ályktun efnahags- og viðskiptanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018