Atvinnuvegamál

Fjarskipti og orkuöryggi 

Uppbygging fjarskiptainnviða er hagsmunamál fyrir atvinnulífið í heild sinni og forsenda fyrir raunverulegu valfrelsi einstaklinga um búsetu. 

Ljósleiðaravæðing landsins, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt grunninn að jafnari skilyrðum til búsetu og styrkt samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Uppbygging ljósleiðarakerfa á þéttbýlisstöðum er forgangsverkefni. 

Brýnt er að frekari áætlanir um lagningu gagnasæstrengja milli Íslands og umheimsins verði að veruleika. Áform um nýjan sæstreng á milli Íslands og Evrópu verða að ganga eftir á árinu 2023. 

Raforkuöryggi – raforkuverð 

Stjórnvöld verða að tryggja afhendingaröryggi á raforku um land allt og ryðja þannig braut að grænni iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. 

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að full jöfnun dreifikostnaðar raforku hefur verið tryggð frá og með þessu hausti, með hækkun jöfnunargjalds og sérstöku framlagi úr ríkissjóði. Mjög brýnt er að sú ráðstöfun verði varanleg og komið verði í veg fyrir að það fjari undan henni vegna mögulegra gjaldskrárhækkana í framtíðinni.

– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

  • Mikilvægt er að einfalda opinbert eftirlit og tryggja að það hamli ekki nýsköpun og framþróun
  • Kappkosta skal að raforka sé framleidd sem næst notendum
  • Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna og að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti
  • Nauðsynlegt er að gjald af nýtingu náttúruauðlinda dragi ekki úr fjárfestingu og framþróun
  • Menntastefna á að vera í takt við atvinnustefnu þjóðarinnar
  • Tryggja þarf stöðugleika í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja
  • Skoða þarf sérstaklega starfsumhverfi smábáta á strandveiðum
  • Tryggja þarf að fiskeldi ógni ekki villtum íslenskum laxa- og silungastofnum
  • Virða þarf frelsi og ákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmi og fjölbreytni í landbúnaði
  • Gera verður sömu kröfur til innfluttra matvæla og til innlendrar matvælaframleiðslu
  • Hvetja þarf til samvinnu skapandi greina og annarra atvinnugreina
  • Stjónvöld eiga að stuðla að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði
  • Sjálfbær nýting auðlinda á að vera grundvallaratriði í öllum ákvörðunum um nýtingu þeirra
  • Uppbygging á raforkuflutningskerfi landsins þarf að vera í takti við famleiðslu og eftirspurn
  • Brýnt er að fara í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku

Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins. Atvinnustefna er fjölskyldustefna.

Við stöðugleika, hóflega skattheimtu og hagkvæma nýtingu auðlinda landsins felast tækifæri til uppbyggingar og velferðar. Hið opinbera á að skapa umgjörð þar sem fyrirtæki og fjárfestar geta horft til framtíðar við áætlanagerð. Fjármagn leitar þá í arðbær verkefni og samkeppni ríkir milli fyrirtækja.

Stjórnvöld eiga að stuðla að stöðugleika og skýru starfsumhverfi atvinnulífsins

Allar atvinnugreinar þurfa starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og stuðla að fjárfestingum og eðlilegri samkeppni. Nauðsynlegt er að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér fyrir umtalsverðri lækkun tryggingargjalds við fyrsta tækifæri. Jafnræðis skal gætt í hvers kyns gjaldtöku sem snýr að atvinnutækjum eða  atvinnugreinum. Í dag eru t.d. skip yfir 5 brúttó tonnum einu atvinnutækin sem greiða þarf stimpilgjald af við kaup og sölu en kaupskip eru þó undanskilin. Á sama hátt má ekki mismuna atvinnugreinum við álagningu kolefnagjalds. Mikilvægt er að einfalda opinbert eftirlit og tryggja að það hamli ekki nýsköpun og framþróun. Það er ekki hlutverk ríkisins að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og koma í veg fyrir hagræðingu heldur að tryggja jafnræði og vinna gegn lögbrotum. Aðgerðir hins opinbera þurfa að stuðla að stöðugleika og skýru umhverfi atvinnugreinanna. Kappkosta skal að raforka sé framleidd sem næst notendum, eftir því er við verður komið. Innviðir samfélagsins skipta atvinnulífið miklu máli og mikilvægt er að tryggja örugga innviðauppbyggingu um land allt. Nauðsynlegt er að nýta einkaframtakið við innviðauppbyggingu eins og hægt er. Í því sambandi þarf að tryggja að flutningur og dreifing raforku sé örugg og verðlagning sanngjörn óháð staðsetningu.

Sjálfstæðisflokkurinn á að beita sér fyrir víðtækri sátt um nýtingu náttúruauðlinda

Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna og að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til hagsbóta, bættra lífsgæða og velferðar.

Þeir sem eiga nýtingarrétt í náttúruauðlindum greiði fyrir það sanngjarnt gjald sem taki mið af hagnaði vegna nýtingarinnar. Slík gjaldtaka á að taka mið af hagsmunum þjóðarinnar til langs tíma litið. Nauðsynlegt er að gjaldtakan dragi ekki úr fjárfestingu og framþróun innan atvinnugreina enda er fjárfesting og nýsköpun forsenda almennrar framþróunar og velmegunar þjóðarinnar. Nýr Þjóðarsjóður tengdur arði af auðlindum, sem tekur fyrst  til orkuauðlindarinnar getur orðið mikilvægur þáttur í langtímastefnumótun. Þó leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að haldið verði áfram að greiða skuldir ríkissjóðs niður samhliða því að fjármunum ríkisins verður varið í Þjóðarsjóð. Því er nauðsynlegt að ríkið hafi skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum í eigu ríkisins sem marki meðal annars stefnu um þróun orkuverðs eins og lög leyfa. Stjórnvöld þurfa að skilgreina ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi framboð af raforku til heimila og annarra almennra notenda.

Stjórnvöld eiga að stuðla að umhverfi þar sem mannauður íslensku þjóðarinnar fær notið sín

Vel menntað og þjálfað starfsfólk er grunnur að samkeppnishæfni fyrirtækja og liður í því að auka framleiðni þeirra. Menntastefna á að vera í takt við atvinnustefnu þjóðarinnar til að tryggja verðmætasköpun samfélagsins. Tryggja þarf öfluga menntun með þarfir atvinnulífsins að leiðarljósi.

Ísland þarf að laða til sín sérfræðinga til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og dýpka þekkingu mannauðsins á sértækum sviðum.

Matvælaframleiðslulandið Ísland

Heilnæmi íslenskrar matvælaframleiðslu og hreinleiki náttúrunnar eru eftirsótt gæði í heimi sívaxandi eftirspurnar eftir matvælum og vatni. Nýta þarf þessa sérstöðu Íslands og leggja frekari grunn að sókn íslenskrar matvælaframleiðslu í landbúnaði og sjávarútvegi. Tryggja þarf að opinbert fjármagn nýtist markvisst til uppbyggingar raunverulegrar nýsköpunar og grasrótarstarfs um allt land. Í þeirri sókn þarf að nýta að fullu kosti og þekkingu íslenskra tæknifyrirtækja og sveigjanlegar lausnir fyrir matvælaframleiðendur. Sérstaða íslensks landbúnaðar er styrkur hans og tryggja þarf fjölbreytta búskaparhætti á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna. Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun s.s. sölu afurða beint frá býli og framleiðslu fiskafurða beint á neytendamarkað. Ferðaþjónusta, orkuiðnaður og matvælaframleiðsla eiga mikla sameiginlega vaxtarmöguleika.

Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegri samkeppni

Íslenskur sjávarútvegur, sem er burðarás í atvinnulífi um land allt, er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Íslenskur sjávarútvegur er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimtu í sjávarútvegi sé stillt í hóf, hún dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Tryggja þarf stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna. Veiðigjöld þau sem eru innheimt í dag eru óhóflega há og langt umfram gjaldþol greinarinnar. Þau ógna þannig samkeppnishæfni og afkomu í nútíð og framtíð.

Í skjóli öflugs sjávarútvegs vex nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Góðar samgöngur innanlands og milli landa eru forsenda þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi sjávarafurða.

Mikilvægt er að öryggi sjómanna sé ávallt haft að leiðarljósi. Skoða þarf sérstaklega starfsumhverfi smábáta á strandveiðum.

Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs sem felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Við frekari uppbyggingu ber að leggja áherslu á góða umgengni ásamt mótvægisaðgerðum, í samræmi við vistkerfisnálgun, svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Jafnframt er mikilvægt að við uppbyggingu  greinarinnar verði sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi þar sem tillit er tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Byggt skal á ráðgjöf færustu vísindamanna og alþjóðlega viðurkenndum aðferðum við uppbyggingu fiskeldis og verndun umhverfisins. Tryggja þarf að fiskeldi ógni ekki villtum íslenskum laxa- og silungastofnum. Þannig er mögulegt að ná sem víðtækastri sátt um frekari uppbyggingu fiskeldis til framtíðar á Íslandi.

Íslenskur landbúnaður

Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða í landinu. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og og neytenda. Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Tvíhliða samningar um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir fela í sér sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað og auka valfrelsi neytenda. Íslenskur landbúnaður er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan landbúnað. Atvinnugreinin þarf sjálf að hafa tæki til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum neytenda og bænda. Framleiðslutakmarkanir þarf að útfæra þannig að þær stuðli að hagræðingu og framleiðniaukningu. Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum nýtækifæri innanlands og erlendis. Ferðamenn sem heimsækja landið sækjast eftir afurðum úr héraði og breiða út orðspor þeirra þegar heim er komið. Stefna ber að því að draga úr opinberum stuðningi við landbúnað og vinna að því að hann geti starfað á markaðsforsendum, meðal annars með því að stuðla að lækkun tilkostnaðar á öllum stigum framleiðslunnar. Þá þarf að tryggja heilbrigða samkeppni með landbúnaðarvörur, þá sérstaklega mjólkurvörur, með það að markmiði að auka vöruúrval og bæta hag neytenda.

Góðar samgöngur innanlands eru forsenda þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi landbúnaðarafurða.

Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífsins

Skapandi greinar eru ört vaxandi atvinnugrein sem snertir mörg svið atvinnulífs, menningarlífs og mannlífs. Hvetja þarf til samvinnu skapandi greina og annarra atvinnugreina enda felur slíkt í sér mörg tækifæri og eykur fjölbreytileika og styrk íslensks atvinnulífs. Tryggja þarf þverfaglegt samstarf stjórnsýslu, atvinnulífs og menningarlífs til þess að stuðla að uppbyggingu greinanna.

Verslun og þjónusta

Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.

Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði. Löngu tímabært er að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu og gefa verslun með áfengi frjálsa.

Rekstur verslunarmiðstöðvar við alþjóðaflugvöllinn á ekki að vera meðal verkefna hins opinbera, hvorki komu- né brottfararverslun. Fríhöfnin ehf. verði lögð niður og einkaaðilum alfarið eftirlátið að sjá um verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ríkið þarf að setja sér eigendastefnu varðandi Isavia, meðal annars varðandi gjaldtöku og samsetningu á þjónustu við farþega. Hið opinbera á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila.

Afnumin verði lög um opinber hlutafélög (ohf). Fyrirtæki í eigu hins opinbera eiga að starfa undir sömu hlutafélagalögum og fyrirtæki í eigu einkaaðila.

Iðnaðar- og orkumál

Auður Íslendinga felst m.a. í þeirri orku sem býr í fallvötnum, jarðefnum, iðrum jarðar og sjávar. Íslensk orkufyrirtæki eru í dag leiðandi á sínu sviði og sú þekking sem Íslendingar hafa skapað á þessu sviði á umliðnum áratugum er orðin að mikilvægri og gjaldeyrisskapandi útflutningsvöru. Sjálfbær nýting auðlinda er og á að vera grundvallaratriði í öllum ákvörðunum. Skýra þarf eigendastefnu ríkisins í orkufyrirtækjum. Landsfundur stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands í tengslum við hagkvæma nýtingu orkuauðlinda.

Íslensk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots sem felst í notkun á grænni íslenskri orku. Landsfundur leggst gegn því að græn upprunavottorð raforku séu seld úr landi.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Uppbygging á raforkuflutningskerfi landsins þarf að vera í takt við framleiðslu og eftirspurn eftir raforku með áherslu á dreifingu þriggja fasa rafmagns. Brýnt er að fara í frekari uppbyggingu flutningskerfisins, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi raforku í einstökum landshlutum og auka um leið samkeppnishæfni þeirra.

Byggingariðnaður

Einfalda þarf regluverk um byggingariðnað og gera það skilvirkara. Draga þarf úr skriffinnsku og flækjustigi og flýta fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis. Í þessu skyni er brýnt að endurskoða og einfalda byggingarreglugerðina og auðvelda uppbyggingu á minni og ódýrari húsnæðiskosti. Við þessar breytingar ber að hafa í huga öryggis-, mannvirkja- og heilsufarssjónarmið. Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn samkeppnishömlum í útboðum hins opinbera, sérstaklega reglum sem hefta frelsi einstaklinga og fyrirtækja, stuðla að fákeppni og hafa leitt til hærri kostnaðar útboðsverka.

Skógrækt sem atvinnugrein

Tækifæri eru til eflingar skógræktar sem atvinnuvegar á viðskiptalegum forsendum. Skógrækt og vinnsla afurða er í þróun. Skógrækt og landgræðsla vega þungt í bindingu kolefnis. Endurskipuleggja þarf starfsumhverfi gróðurverndarmála.

Byggir á ályktun atvinnuveganefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018