- Ísland á að vera í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks
- Einstaklingar eiga sjálfir að ákveða kyn sitt
- Allir njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnrétti óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu
- Trúfrelsi, málfrelsi og atvinnufrelsi telst til almennra mannréttinda
- Aðskilja skal ríki og kirkju
- Eignaréttur og almenn borgaraleg réttindi skulu njóta verndar í samfélaginu
- Styðja skal félagsaamtök og stofnanir sem vinna gegn ofbeldi
- Lagt er til að áfengiskaupaaldurinn verði lækkaður í 18 ár
- Tryggja skal jöfn tækifæri allra og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga
- Tryggja þarf að eftirlit sé skilvirkt gegn sviksemi í viðskiptum og skattskilum
Sjálfstæðisflokkurinn byggir stefnu sína á mannréttindum, jafnfræði, frelsi og ábyrgð einstaklingsins. Allir eiga að fá notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs- eða stjórnmálaskoðana, kyns, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.
Öllum er heimilt að aðhyllast og iðka hvaða trú sem er, skipta um trú eða hafna öllum trúarbrögðum. Trúfrelsi telst til almennra mannréttinda eins og málfrelsi og atvinnufrelsi. Þjóðkirkjan hefur haft bæði sögu- og menningarleg áhrif á íslenskt samfélag. Frekari aðskilnað ríkis og kirkju þarf að framkvæma með farsæld þjóðarinnar að leiðarljósi. Ljúka þarf við endurskoðun á fjárhagslegu sambandi ríkis og kirkju.
Sjálfstæðisflokkurinn á áfram að vera leiðandi í málefnum sem snúa að vernd eignaréttar og almennum borgaralegum réttindum hvort sem um er að ræða málefni hinsegin fólks, fatlaðra, útlendinga eða annarra aðila. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar hvers kyns ofbeldi. Leggja ber áherslu á forvarnir og styðja félagasamtök og stofnanir sem vinna gegn ofbeldi. Þar til bærar stofnanir ríkis og sveitarfélaga þurfa að aðstoða betur fjölskyldur og einstaka brotaþola í því sambandi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram að vera leiðandi í málefnum hinsegin fólks og vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum þess með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði. Í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt. Kynvitund og kyngervi þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.
Gera þarf enn betur í réttarvörslukerfinu þegar kemur að þolendum ofbeldisbrota, einkum kynferðis- og heimilisofbeldis. Nýrri aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu hefur verði hrint í framkvæmd og fjármögnuð að fullu. Brýnt er að fylgja henni fast eftir. Stytta þarf málsmeðferðartíma og setja kynferðisbrotamál í forgang í réttarvörslukerfinu, skilgreina hlutverk réttargæslumanns brotaþola betur svo þjónustan sé samræmd, skýr og brotaþolanum til gagns. Auka þarf þátt rafrænnar stjórnsýslu í réttarvörslukerfinu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill huga sérstaklega að réttindum ungs fólks.
Lagt er til að áfengiskaupaaldurinn verði lækkaður í 18 ár, þannig að einstaklingum sem samkvæmt lögum eru lögráða (sjálfráða og fjárráða) verði heimilt að kaupa áfengi eins og aðrar neysluvörur.
Jöfn tækifæri og jafnrétti
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga sem er grundvöllur jafnréttis. Jafnrétti framar jöfnuði. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að jafna hag manna með valdboði heldur tryggja að sem mest sé til skiptanna og að umbun fylgi árangri. Þegar árangur og atorka einstaklinga er metin að verðleikum í leik og starfi miðar þjóðfélaginu hraðast fram á veg. Á sama tíma er stutt við þá sem standa höllum fæti.
Löggjöf og leikreglur í viðskiptum og daglegu lífi skulu vera skýrar, einfaldar og sanngjarnar. Tryggja þarf að eftirlit sé skilvirkt gegn sviksemi í viðskiptum og skattskilum.
Byggir á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018