Stjórnarskrámál

Stjórnskipun og löggæsla 

Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna og hefur tekið nauðsynlegum breytingum á lýðveldistímanum. 

Tilefni er til endurskoðunar ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar en hyggja þarf vel að þeim breytingum og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Mikilvægt er að fylgja ákvæðum stjórnarskrár um hvernig standa skuli að breytingum á grunnlögum landsins.

– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

 

  • Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins og fara skal varlega í breytingar á henni
  • Víðtæk sátt þarf að ríkja um stjórnarskrárbreytingar og gæta þarf að sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika
  • Endurskoða þarf hlutverk og stöðu forseta Íslands og setja embættinu skýrt hlutverk og valdmörk
  • Leggja skal Landsdóm niður og endurskoða ákvæði um ráðherraábyrgð
  • Skilgreina þarf betur hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna.

Hyggja þarf vel að breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Með tímanum mótast inntak ákvæða hennar, sem skýrast svo í framkvæmd með túlkun dómstóla. Í þessu ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli varlega í breytingar á stjórnarskránni.

Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að tilteknir kaflar og ákvæði stjórnarskrárinnar verði tekin til endurskoðunar.

Í stjórnarskránni ætti að vera ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, þannig að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lagafrumvörp, að undanskildum fjárlögum, skattalögum og lögum settum á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga.

Endurskoða þarf hlutverk og stöðu forseta Íslands. Setja þarf embættinu skýrt hlutverk og valdmörk. Landsdómur skal lagður niður og samhliða fara fram endurskoðun á ákvæðum um ráðherraábyrgð.

Sjálfstæðisflokkurinn telur þá leið sem nú hefur verið valin við endurskoðun á stjórnarskrá líklegasta til að skapa nauðsynlega sátt um þær breytingar sem eru mest aðkallandi. Tryggja þarf að vel verði haldið utan um það þverpólitíska samstarf sem hafið er. Mikilvægt er að upplýsingaflæði til almennings verði gott og að vinnan skili sér í sátt um breytingar á stjórnarskránni á næstu tveimur kjörtímabilum.

Skilgreina þarf eftirlitshlutverk Alþingis. Í því ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn ráðlegt að betur sé gerð grein fyrir hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Byggt á ályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018