- Heildarskuldir ríkisins verði undir 15% af landsframleisðlu árið 2022
- Afnema ætti fjármagnshöft að fullu
- Skynsamleg nýting opinberra fjármuna og aga í fjárlagagerð
- Útgjöld hins opinbera ekki hærri en 35% af landsframleiðslu árið 2025
- Útgjaldabremsa ríkisútgjalda verði bundin í lög
- Sala ónauðsynlegra ríkiseigna og fasteigna
Viðsnúningur hefur orðið í rekstri ríkissjóðs á undanförnum árum. Hallarekstur heyrir nú sögunni til og tryggja þarf að svo verði áfram. Niðurgreiðsla skulda og aðhald í ríkisútgjöldum eru mikilvægustu viðfangsefni fjárlagagerðarinnar. Skuldir ríkisins voru 31% af vergri landsframleiðslu í árslok 2017 og hefur skuldastaðan tekið miklum breytingum til hins betra á örfáum árum. Hagstjórnin skiptir sköpum fyrir komandi kynslóðir til að bæta lífskjör, stuðla að stöðugu verðlagi, hóflegu vaxtastigi og halda skuldum hins opinbera innan skynsamlegra marka. Fjármál ríkisins eru einn mikilvægasti þátturinn í því verkefni ásamt trúverðugri peningastefnu og skynsamlegum kjarasamningum á vinnumarkaði.
Þak á skuldir ríkissjóðs
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að þak á skuldir ríkissjóðs er nú fest í sessi í lögum um opinber fjármál. Í því felst að ef heildarskuldir ríkissjóðs fara yfir ákveðið hlutfall af landsframleiðslu verði að lækka skuldir milli ára og óheimilt er að reka ríkissjóð með halla á tilteknu tímabili hverju sinni. Mikilvægt er að marka þá stefnu að heildarskuldir ríkissjóðs verði undir 15% af landsframleiðslu árið 2025. Núverandi fjármálastefna gerir ráð fyrir að ná þessu hlutfalli í 20% árið 2022.
Lækkun vaxtagjalda og lífeyrisskuldbindinga forgangsmál
Vaxtagjöld eru þriðji stærsti einstaki útgjaldaliður fjárlaga og samsvara nær öllum útgjöldum ríkisins til mennta- og menningarmála. Eðlilegt er að horfa til lækkunar vaxtagjalda í kjölfar lækkandi skulda ríkissjóðs.
Mikilvægt skref var stigið undir lok ársins 2016 þegar ríkissjóður greiddi yfir 100 milljarða króna inn á lífeyrisskuldbindingar sínar en nauðsynlegt er að heildarskuldbinding vegna lífeyrisréttinda lækki á hverju ári.
Afnám fjármagnshafta
Losun fjármagnshafta var eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda og það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi aflétt gjaldeyrishöftum að mestu. Meðferð Seðlabankans á þeim tækjum sem enn eru fyrir hendi að þessu leyti er ekki trúverðug og ætti því að afnema fjármagnshöft að fullu.
Útgjöldin hamin — skattgreiðendur verða að fá svigrúm
Útgjöld ríkisins hafa vaxið frá síðustu kosningum á vakt Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir skattalækkanir. Árið 2016 námu opinber útgjöld 45% af landsframleiðslu. Í þessu felst að stjórnmálamenn eyddu næstum því annarri hverri krónu sem landsmenn öfluðu. Þessi staða er óásættanleg.
Nauðsynlegt er að koma böndum á frekari útþenslu hins opinbera og varða leiðina í átt að eðlilegu jafnvægi milli opinberra útgjalda og svigrúms almennings til að ráða sínu fé.
Fjármálastefna hins opinbera leiðir fram áherslur stjórnmálanna á hverjum tíma. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður stefnt að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu árið 2025.
Skarpari sýn á hlutverk hins opinbera felur í sér að verkefnum sem nú eru á forræði opinberra aðila verður ýtt út af borðinu. Almenningur mun ekki lengur bera kostnaðinn af þeim með skattgreiðslum sínum. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður á næstu árum dregið verulega úr umsvifum ríkisins og forgangsraðað í þágu grunnþjónustu.
Útgjaldabremsa í lög
Sjálfstæðisflokkurinn vill binda í lög að útgjöld ríkissjóðs vaxi ekki á milli ára umfram meðalhagvöxt undangenginna 10 ára auk 2,5% verðlagsbreytinga. Skapa verður samstöðu um varfærna nálgun í ríkisfjármálunum og taka slíka útgjaldabremsu upp í lög um opinber fjármál.
Engin útgjöld á að vera heimilt að samþykkja án þess að viðkomandi lagafrumvarpi fylgi greinargerð um tilgang og markmið svo og kostnaðargreining og tekjugreining til fimm ára. Reglulega fari fram óháð mat á gagnsemi, hagkvæmni og árangri af fjárframlögum til viðfangsefna svo sem sjóða og verkefna.
Tækni til lækkunar kostnaðar við opinberan rekstur
Fjölmörg tækifæri felast í að nýta betur fjármagn með aukinni áherslu á sjálfvirkni og tæknilausnir. Ríkið skal í auknum mæli innleiða rafrænar lausnir og gervigreind í rekstri sem munu skila sér í bættri þjónustu og lægri kostnaði.
Mikilvægt er að meta árangur og tækifæri og setja skýr markmið.
Skuldbindingar ríkissjóðs komi fram í ríkisreikningi
Í ríkisreikningi skal koma skýrt fram hverjar heildar skuldbindingar og ábyrgðir ríkisins eru á hverjum tíma og þær færðar til núvirðis. Að sama skapi ættu allar slíkar skuldbindingar að koma fram í efnahagsreikningi og teljast meðal skulda ríkissjóðs.
Styrkari tök á fjármálum ríkisins
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að framkvæmd fjárlaga verði færð í traustari farveg en verið hefur þannig að heildarútgjöld samkvæmt ríkisreikningi verði aldrei hærri en fjárlög.
Á tímabilinu 2010-2016 reyndust útgjöld ríkisins samkvæmt ríkisreikningi að meðaltali 7% hærri en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir, samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins. Leggja verður af þann ósið að samþykkja aukningu útgjalda í fjáraukalögum. Kalla á stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja til ábyrgðar haldi þeir rekstri þeirra ekki innan fjárlaga.
Gera skal upplýsingar um fjárlög ítarlegri, notendavænni og aðgengilegri. Ríkisreikningi liðins árs skal vera búið að loka eigi seinna en 30. apríl árið á eftir. Ríkisreikningur skal endurskoðaður af óháðu endurskoðunarfyrirtæki.
Sala eigna
Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Landsbanka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspósti og annan samkeppnisrekstur. Öll söluferli verða að vera opin og leikreglur skýrar. Þá er rétt að leggja niður ÁTVR og RÚV í núverandi mynd.
Ráðast þarf í úttekt á hagkvæmni húsnæðis ríkisstofnana og að ríkið selji í framhaldinu allar þær fasteignir sem ekki eru nauðsynlegar.
Byggt á ályktun fjárlaganefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018