Sveitarfélög
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sjálfstæði sveitarfélaga en vill stuðla að aukinni samvinnu þeirra og sameiningu í samræmi við vilja íbúa. Endurskoða þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Frelsi til vals um búsetu er mikilvægt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu, öruggu og nægu rafmagni, öflugum fjarskiptum og góðum samgöngum, skapast tækifæri fyrir dreifbýli og þéttbýli til bættra lífsgæða.
– Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021
- Lagningu bundins slitlags á öllum stofnleiðum verði lokið innan fjögurra ára
- Áfram verði unnið markvisst að fækkun einbreiðra brúa
- Fyrirbyggjandi framkvæmdir þar sem slysatíðni er há verði settar í forgang
- Íslandi styrki stöðu sína og tryggi hagsmuni Íslands á norðurslóðum
- Leggja þarf áherslu á brýnt viðhald flugvalla og flugöryggisstöðva í samræmi við alþjóðastaðla
- Reykjavíkurflugvöllur verði óskertur í Vatnsmýri
- Öflugar háhraðatengingar standi öllum íbúum landsins til boða óháð búsetu
- Mikilvægt er að stækka og efla sveitarfélög og efla íbúalýðræði
- Undanþágur frá álagningu fasteignaskatts skulu vera á valdi sveitarfélaga
- Sveitarfélög útvisti verkefnum og nýti krafta einkaaðila þegar það á við
- Mótuð verði heildstæð og framsækin byggðastefna til lengri tíma með áherslu á jöfn tækifæri til atvinnu og búsetu
Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvæg undirstaða atvinnulífs, ferðaþjónustu, einstaklingsfrelsis og samkeppnishæfni byggðarlaga landsins. Fjárfestingar í innviðum samfélagsins eru almennt arðsamar, enda þjóna þær almenningi og styrkja bæði atvinnulíf og búsetu. Í því skyni ber að efla almenningssamgöngur jafnt í þéttbýli sem og í hinum dreifðari byggðum. Skoða þarf sérstaklega fjármögnun samgöngumannvirkja og aðrar leiðir en bein framlög af fjárlögum. Með því að flýta ákveðnum samgönguframkvæmdum skapast betra umferðarflæði, umferðaröryggi eykst og mengun frá umferð minnkar. Í áætlanagerð vegaframkvæmda skal stytting vegalengda og umferðaröryggi haft í fyrirrúmi, vegna þess að alvarlegum umferðarslysum á Íslandi hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Áður en ráðist er í umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir skal gera óháð umferðarlíkan þar sem allir samgöngumátar eru metnir samtímis.
Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur þar sem það er hagkvæmt. Vel verði fylgst með tækniframförum og þróun á sviði samgangna og þær lausnir nýttar sem helst henta við íslenskar aðstæður. Mikilvægt er að afdráttarlaus stefna sé til staðar um hvernig standa eigi að ívilnunum vegna vistvænna ökutækja og nauðsynlegt að þær ívilnanir séu hugsaðar til mun lengri tíma en nú er gert. Tryggja þarf starfsgrundvöll deilihagkerfa í samgöngumálum. Vinna skal að einföldun skattlagningar í samgöngum.
Samgöngur á landi
Vegakerfið hefur verulega látið á sjá undanfarin ár vegna skorts á viðhaldi. Skýr forgangsröðun, aukin burðargeta, stytting vegalengda og umferðaröryggi skal haft að leiðarljósi í framkvæmdum. Bæta þarf þjóðvegi í þéttbýli í góðu samstarfi ríkis og sveitafélaga með það að markmiði að umferðaöryggi aukist. Líta þarf til alþjóðlegra staðla og tækniþróunar um þessa þætti og auka þátttöku einkaaðila án ábyrgðar hins opinbera, en þó í góðri sátt við íbúa. Sjálfbærar, skynsamlegar samgöngur fyrir alla, óháð samgöngumáta, er það sem leggja skal til grundvallar. Fyrirbyggjandi framkvæmdir þar sem slysatíðni er há verði settar í forgang með það að markmiði að koma í veg fyrir banaslys og alvarleg slys. Lagningu bundins slitlags á öllum stofnleiðum verði lokið innan fjögurra ára og áfram unnið markvisst að fækkun einbreiðra brúa. Uppfæra þarf eldri vegstaðla og þá sem í gildi eru svo þeir samræmist nýjum vegaframkvæmdum og að umferðaröryggi sé ávallt haft að leiðarljósi.
Uppbyggingu hjólreiða-, göngu- og reiðstíga í og við þéttbýli þarf að vinna heildstætt og tryggja samvinnu milli sveitarfélaga. Efla þarf almenningssamgöngur og gera þjónustuvænni svo að þær verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri. Skoðaðir verði möguleikar á samgöngumiðstöð við Kringluna. Brýnt er að endurskoða samning ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um frestun vegaframkvæmda. Umferðarfræðsla í grunn- og framhaldsskólum verði aukin til muna og ökukennsla byggð upp á sama hátt og í nágrannalöndum, sér í lagi hvað varðar aðstöðu og aðferðir við verklega kennslu.
Bæta þarf aðgengi að áhugaverðum svæðum t.d. með fjölgun áningarstaða með það að markmiði að auka öryggi ferðamanna. Á undanförnum misserum hefur alvarlegum slysum ferðamanna fjölgað verulega.
Samgöngur á sjó
Ferjuleiðir verði skilgreindar sem virkur hluti af þjóðvegakerfinu og sem liður í eflingu ferðaþjónustunnar. Í dag eru fjölmörg samfélög háð samgöngum á sjó að verulegu leyti. Á það til að mynda við Vestmannaeyjar, Vestfirði, Hrísey, Grímsey og Flatey. Tryggja þarf að í landinu sé heppileg ferja sem hægt verði að nýta til afleysinga í þessar siglingar þegar þörf er á.
Stærð og fjöldi farþegaskipa við Ísland hefur aukist verulega. Vegna verulegrar fjölgunar stærri skipa er brýnt að tryggja betri björgunar- og dráttargetu við landið. Skoða ber hagkvæmni þess að rafvæða skipahafnir umhverfis landið.
Með áframhaldandi áhrifum hnattrænnar hlýnunar er mikilvægt að Íslandi styrki stöðu sína og tryggi hagsmuni Íslands á norðurslóðum með tilliti til loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar.
Samgöngur í lofti
Hátt verðlag á innanlandsflugi er farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa úti á landi. Íbúar landsins verða að geta sótt sér nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu með greiðum samgöngum þ.m.t. innanlandsflugi. Nauðsynlegt er að koma til móts við hátt verðlag á innanlandsflugi með því að innleiða „skosku leiðina” sem veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum landsvæðum rétt til afsláttar á flugfargjöldum. Með því verður innanlandsflug raunhæfur valkostur fyrir landsmenn og jafnar búsetuskilyrði.
Keflavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki í örri þróun ferðaþjónustunnar. Tryggja þarf að stærð, gæði og afkastageta hans og flugstöðvarinnar verði ætíð í samræmi við þarfir ferðaþjónustunnar. Ríkið bjóði út heildarrekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Horfa skal til uppbyggingar á fleiri alþjóðaflugvöllum umhverfis landið bæði með tilliti til minni og stærri flugvéla.
Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið og er því brýnt að hann verði óskertur í Vatnsmýri uns annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri er þýðingarmikil miðstöð íslensks áætlunarflugs, áfangastaður til eina hátæknisjúkrahúss landsins, miðstöð flugkennslu og jafnframt mjög mikilvægur varaflugvöllur millilandaflugsins. Hraða þarf byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar og flugstöðvar í Vatnsmýri.
Öflugt innanlandsflug er mikilvægt hagsmunamál fyrir alla þjóðina. Leggja þarf áherslu á brýnt viðhald flugvalla og flugöryggisstöðva í samræmi við alþjóðastaðla. Halda þarf áfram uppbyggingu flugvalla í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum til eflingar millilandaflugs. Flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri gegna þýðingamiklu hlutverki sem varaflugvellir líkt og Reykjavíkurflugvöllur. Með sívaxandi umsvifum á Keflavíkurflugvelli þarf að huga betur að getu þeirra til að sinna því hlutverki þar sem einungis er pláss fyrir fjórar farþegaþotur á hvorum velli. Það er því orðið mjög aðkallandi að stækka hlöðin á þessum völlum til að fyrirbyggja að háskalegt ástand geti skapast ef Keflavíkurflugvöllur skyndilega lokast. Þjóðhagslega mikilvægt er að styrkja alla millilandaflugvelli landsins þannig að umferð ferðamanna dreifist jafnar um landið allt og nýti innviði þess betur. Slíkt stuðlar að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu.
Gæta þarf hófs í opinberri gjaldtöku og íþyngjandi ákvæðum reglugerða, bæði hvað varðar flugrekstur í atvinnuskyni og í grasrót flugsins.
Fjarskipti
Mikil tækifæri felast í uppbyggingu fjarskiptainnviða, en raunverulegt frelsi til búsetu felst í því að landsmenn allir hafi aðgang að netinu. Einn helsti vaxtarsproti heimila og atvinnulífs er markviss og aukin notkun netsins. Netið leikur lykilhlutverk í framförum í byggðamálum, verslun og færslu opinberrar þjónustu nær borgurum. Nauðsynlegt er að öflugar háhraðatengingar standi öllum íbúum landsins til boða óháð búsetu enda grundvöllur þess að efla byggðir, atvinnusköpun og nýtingu allra náttúruauðlinda landsins.
Aukin samkeppni á leigubifreiðamarkaði
Tímabært er að samkeppnishömlur á leigubifreiðamarkaði verði afnumdar þannig að aukinn sveigjanleiki verði í þjónustuframboði, verðmyndun og nýsköpun. Samtímis þarf að gæta að því að kröfur um gæði og öryggi þjónustunnar verði áfram fyrir hendi án þess þó að þær séu umfram brýna nauðsyn.
Málefni sveitarstjórnarstigsins
Mikilvægt er að stækka og efla sveitarfélög og efla íbúalýðræði. Stefna skal að flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga enda fylgi nægjanlegt fjármagn með verkefnunum. Forsenda þess að fleiri verkefni flytjist frá ríki til sveitarfélaga er að sveitarfélögin séu hagkvæmar rekstrareiningar sem staðið geti undir lögbundnu hlutverki sínu. Ennfremur þarf að huga sérstaklega að rekstrarumhverfi sveitarfélaga þar sem ör fjölgun íbúa, langt umfram landsmeðaltal, kallar á gríðarlegar fjárfestingar innviða á skömmum tíma.
Öll mannvirki eiga að lúta fasteignamati. Undanþágur frá álagningu fasteignaskatts skulu vera á valdi sveitarfélaga. Endurskoða skal skyldu sveitarfélaga til þess að láta í té endurgjaldslaust lóðir. Þess í stað verði það á valdi sveitarfélaga hverju sinni að ákveða afslátt af byggingargjöldum. Greiða skal gatnagerðargjöld/byggingaleyfisgjöld af opinberum byggingum.
Lögð er áhersla á efnahagslegan styrk og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Tryggja þarf sveitarfélögunum tekjustofna í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin. Breikka þarf og styrkja tekjustofna sveitarfélaga og veita þeim hlutdeild í skatttekjum ríkisins án þess að heildarskattbyrði einstaklinga og fyrirtækja sé aukin.
Sveitarfélög útvisti verkefnum og nýti krafta einkaaðila þegar það á við, svo sem í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu. Auka skal sjálfstæði sveitarfélaga þegar kemur að því að ákveða fjölda fulltrúa í sveitastjórnum.
Byggðamál
Frelsi til vals um búsetu er mikilvægt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu verði byggð um allt land best tryggð. Tækifæri landsbyggðanna til aukinna lífsgæða íbúa verða best tryggð með tryggu og nægu rafmagni, fjölbreyttri menntun, góðum samgöngum og öflugum fjarskiptum. Einnig er brýnt að forsendur skapist fyrir fjölbreyttu námsframboði, jafnt með staðbundnu námi og fjarnámi.
Mótuð verði heildstæð og framsækin byggðastefna til lengri tíma með áherslu á jöfn tækifæri til atvinnu og búsetu. Grunnur að auknum lífsgæðum er lagður með því að nýta gæði landsins sem best. Einstaklingsfrelsi og skapandi hugsun í atvinnumálum fjölgar atvinnutækifærum. Uppbygging og stuðningur við nýsköpun treystir búsetuskilyrði í landinu. Efla skal starf landshlutasamtaka um land allt.
Gæta skal hagsmuna sveitarfélaga við mótun löggjafar um gjaldtöku af ferðamönnum og þegar teknar eru ákvarðanir um uppbyggingu innviða til að mæta auknum ferðamannastraumi til landsins.
Byggt á ályktun umhverfis- og samgöngunefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018