Sjálfstæðisfólk gekk samanlagt rúmlega tvær milljónir skrefa í gær á tuttugu stöðum um land allt í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Það samsvarar því að flokksmenn hafi gengið rúmlega hringinn í kringum landið (á þjóðvegi 1).
Göngurnar voru skipulagðar af heimafólki á hverjum stað og hittist fólk á eftir og gæddi sér á veitingum. Myndaðist mjög góð stemning í kringum viðburðina líkt og alla jafnan þegar sjálfstæðisfólk hittist og gerir sér glaðan dag. Allir þeir sem mættu voru leystir út með vatnsbrúsa merktum flokknum að hátíð lokinni sem vöktu mikla lukku.

Í Reykavík var gengið frá Rafstöðvarheimilinu í Elliðaárdal í gegnum Elliðaárdalinn og Laugardalinn og endað í Valhöll. Í Hafnarfirði stóðu sjálfstæðisfélögin í Garðabæ og Hafnarfirði sameiginlega fyrir göngu sem hófst á Norðurbakka í Hafnarfirði og var gengið innan Hafnarfjarðar í átt að Norðurbænum og m.a. gegnum Víðistaðatún og Hellisgerði.
Í Reykjanesbæ var gengið um Keflavík og hófst gangan og endaði við Duus-hús. Í Grindavík voru gengnir rúmlega 5 km um bæinn. Í Hveragerði var gengið frá Lystigarðinum að nýju listaverki sem stendur á bökkum Varmár og endað í dögurð í Sjálfstæðisheimilinu í Hvaragerði. Á Selfossi var gengið undir leiðsögn Kjartans Björnssonar bæjarfulltrúa. Gengið var frá Sjálfstæðisheimilinu í gegnum Sigtúnsgarðinn, upp Kirkjuveginn og endað við Kaffi Krús.

Á Hellu var gengið niður að Ægissíðufossi og upp með Ytri-Rangá undir leiðsögn Ernu Sigurðardóttur. Í Vestmannaeyjum fór fram söguganga um bæinn undir leiðsögn Arnars Sigurmundssonar. Á Kirkjubæjarklaustri var gengið um Ástarbrautina og hófst og endaði gangan við Kirkjubæjarskóla. Á Höfn var gengið um bæinn undir leiðsögn Alberts Eymundssonar fyrrum bæjarstjóra á Hornafirði.
Á Fljótsdalshéraði var gengið upp að Fardagafossi. Í Mývatnssveit var gengið á Hverfjall. Í Aðaldal var gengið á Geitafellshnjúk. Á Grenivík var gengið á Þengilshöfða. Á Akureyri var gengið í Kjarnaskógi og trjálundur sem eldri sjálfstæðismenn gróðursettu í Naustaborgum skoðaður og að lokum grillað í Kjarnaskógi.

Á Sauðárkróki var gengið frá heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra upp Litlaskóg, Nafir, Kirkjustíg og Suðurgötu og svo endaði að nýju við heimavistina þar sem slegið var upp grillveislu.
Á Ísafirði var genginn hringur í Tungudal í frábæru veðri og að lokum slegið upp grillveislu. Í Stykkishólmi var gengið um gamla bæinn þar sem Sturla Böðavarsson fyrrverandi ráðherra, forsteti Alþingis og bæjarstjóri í Stykkishólmi sagði frá sögu Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar. Á Hvanneyri gekk borgfirskt sjálfstæðisfólk undir leiðsögn Magnúsar B. Jónssonar fyrrum rektors Landbúnaðarháskóla Íslands um háskólasvæðið. Á Akranesi gekk sjálfstæðisfólk hring í Garðalundi en eftir gönguna var boðið upp á grillaðar pylsur.






